11. desember 2017
Bumbuloní styrkur til fjölskyldna langveikra barna var afhentur í gær. Afhendingin var í Lindakirkju kl. 14 og var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, viðstaddur. Síðastliðin tvö ár hafa þrjár fjölskyldur fengið styrk, þ.e. þrjár fjölskyldur fyrir jólin 2015 og þrjár fjölskyldur fyrir jólin 2016. En í ár fengu átta fjölskyldur styrk frá Bumbuloní.
Bumbuloní góðgerðafélagið fékk gefins sölusíðuna www.bumbuloni.is frá TM Software fyrir jólin í fyrra sem góðgerðaverkefni og fór hún í loftið í júlí á þessu ári. Mikil sala hefur verið í gegnum síðuna og þá sérstaklega eftir viðtal við Ásdísi eiganda Bumbuloní í Fréttablaðinu í nóvember og í Bítinu á Bylgjunni í byrjun í desember.
Bumbuloní selur tækifæriskort, jólakort og jólamerkimiða og eru tækifæriskortin til sölu í öllum búðum Lindex, Willamia á Garðatorgi, Líf og list Smáralind, Kaupmanninum á Ísafirði og nú hefur Casa bæst í hópinn. Einnig hefur sala kortanna farið fram í gegnum tölvupóst til fyrirtækja og á samfélagsmiðlum. Bumbuloní fékk styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum á árinu og einnig var góður hlaupahópur sem hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir Bumbuloní þetta árið.
Fjárhagsleg staða hjá fjölskyldum sem eiga langveik börn er alla jafna ekki sterk og þörfin er mikil. Það voru átta fjölskyldur sem fengu styrk að þessu sinni og voru sex fjölskyldur af þeim úr hópi skjólstæðinga Leiðarljóss sem er stuðningsmiðstöð fyrir fjölskyldur sem eiga alvarlega langveik börn.
Afhendingin var hátíðleg og mikil gleði, sérstaklega hjá Ásdísi að geta afhent þessum fjölskyldu styrki og sýnt þeim þannig góðvild og kærleik fyrir jólahátíðina. Það er dýrmætt að halda upp minningu Björgvins Arnars með því að nýta teikningarnar hans til góðs.
Bestu þakkir fyrir stuðninginn til þeirra sem lögðu félaginu lið. Það er margt gott hægt að gera þegar fólk og fyrirtæki taka höndum saman. Við skulum halda því áfram.
Gleðileg jól!
Ásdís